Steingrímur Einarsson hannar og smíðar Einarsson fluguhjólin.

„Ég er fæddur á Rauðarárstígnum í Reykjavík. Þegar ég var sex ára flutti fjölskyldan austur fyrir fjall að Sogsvirkjunum, þar sem faðir minn starfaði. Þar kynntist ég fyrst veiði, við Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og sjálft Sogið. Þetta er stórkostlegt vatnasvæði og auðvelt að verða heltekinn af veiðiskap.“

Steingrímur byrjaði að smíða fyrstu Einarsson hjólin eftir eigin teikningum árið 2004. Hann veiddi með þeim um sumarið í Svalbarðsá og landaði vænum löxum. „Þar með fóru hjólin að snúast, í orðsins fyllstu merkinu. Í dag framleiðum við  Einarsson fluguveiðihjól sem heita Plus og Invictus. Þau eru seld til veiðimanna út um allan heim, hvort sem er í létta silungsveiði eða veiði á stórfiskum í ám og sjó. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og mörgum fiskum verið landað til að fínpússa og þróa Einarsson hjólin sem standast samanburð við bestu veiðihjól í heimi.“

Einarsson hjólin eru sérlega falleg. Þau fást í mörgum litum og hægt að merkja þau sérstaklega með nafni viðkomandi veiðimanns.

„Einarsson hjólin hafa alveg sérstakan persónuleika finnst mér. Þau eru sterkbyggð, þola smá hnjask, og bremsan er algerlega frábær. Ef bremsan er ekki silkimjúk er hætta á flugan slitni úr fiskinum eða að taumurinn slitni. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að ramminn eða búrið sé vel lokað. Ef hjólin eru ekki þannig útbúin þá er mikil hætta á að línan festist á milli spólu og ramma og þá er allt fast. Mjög margir veiðimenn hafa hrósað Einarsson hjólunum fyrir nákvæmlega þetta, hversu ramminn er vel lokaður ásamt því hve hjólin eru sterkbyggð en samt létt.“