Þar sem áin fellur hæg að grasigrónum bakkanum svífur rjómagul vorfluga með vatnsfletinum, sest fimlega á lygnupoll, snyrtir vængi og dansar sinn síðasta dans. Svelgurinn sem sem brýtur spegilinn er voldugur og ég veit að mín bíða ævintýri.

og hann er á!

Þegar ég fékk fyrsta sjóbirtinginn öslandi í yfirborðinu á eftir rauðum spinner í Vesturdalslóni í Vopnafirði var ég á toppi heimsins, fullkomlega á valdi veiðiástríðunnar. Hálfri öld síðar er ég ennþá við sama heygarðshornið. Sama tilfinningin heldur mér á tánum og fær blóðið á hreyfingu. Ég hef samt á þessum áratugum sem liðnir eru frá björtum sumarnóttum við Vesturdalslón tekið hin ýmsu hliðarspor, eins og til dæmis það að láta mér  detta sú fásinna í hug að hætta að veiða af því að ég var orðinn leiður á maðk- og spúnaveiði. The thrill was gone, svo ég vitni í konung blússins BB King. Það sem bjargaði mér frá þeim illu örlögum var þegar ég handlék í fyrsta sinn flugustöng og eftir það hefur þetta verið eitt allherjar ævintýri þó að vissulega hafi skipst hafa á skin og skúrir eins og gengur og gerist í öllum góðum ævintýrum. Ég hef notið leiðsagnar frá mér betri mönnum og konum enda trúi ég því staðfastlega að kjarninn í fluguveiði liggi í fræðslunni og því að miðla kunnáttu frá manni til manns. Ekkert veit ég meira gefandi en ganga út að á með nýliða og miðla af því sem miðlað hefur verið til mín í gegnum árin.  Fluguveiði er í mínum huga vegferð sem endist alla ævi, óendanleg uppspretta lærdóms og gleði en í leiðinni mikil áskorun á persónuleika þess sem veiðir. Ég hef sjálfur gengið í gegnum dimman dal innistæðulausra hugmynda um eigið ágæti, veiðiferða sem stóðust engan veginn væntingar og gerðu að verkum að forsíðumyndir af metfiskinum létu bíða eftir sér. Þá var gott að hitta öldungana sem gengu mér í læriföðurstað og lögðu til að ég andaði að mér ilmi blómanna, nyti augnabliksins og gæfi hégómanum frí um stund.

 

Hver kafli í þessari skemmtilegu vegferð, og þeir eru ófáir, hefur haft sinn sjarma. Nú veiði ég nær eingöngu með þurrflugum og gáruflugum og sit löngum stundum við árbakkann án þess að gera minnstu tilraun til veiða. Bíð eftir að fluga kvikni eða að fiskur brjóti yfirborðið eða hreinlega fæ mér lúr ef þannig viðrar.  Svo koma stundirnar þar sem taka þarf á honum stóra sínum. Langar göngur yfir grjót og urð með bakpoka og stöng heilla mig endalaust og meðan ég dreg andann og get hreyft mig læt ég mig hafa óblíðar aðstæður og válynd veður.  

  

Brot af broti

Af brekkubrún sér vel yfir stórkostlegan veiðistaðinn sem geymir alla jafna mikið af fiski. Ég þekki staðinn vel, hér hef ég nokkrum sinnum lent í ævintýrum sem flest hafa endað á einn veg.

sporðaköst og gusugangur við sleppingu

Að þessu sinni fæ ég að veiða brotið meðan veiðifélaginn kastar á stríðan strenginn og efri hluta veiðistaðarins. Ég kem mér  fyrir uppi á flötum steini nokkra metra frá landi þar sem ég hef brotið í kastfæri. Undir er þurrfluga ættuð frá Labrador, græn með hvítum hárvængjum og hvítu skotti. Ég kasta þvert og hlykkja línuna til að fá dauðarek á fluguna.  Þegar réttist úr henni ólgar tvisvar við gáruna.  Ég hnýti gáruhnút á þurrfluguna og læt hana koma á ferðinni utan úr straum og gára yfir brotið. Og þvílíkur sirkus!  Laxarnir elta fluguna utan úr straumnum niður á brot og við stóran stein fyrir miðju broti fæ ég hvað eftir annað veglega ólgu. Í eitt skiptið slær stórlax niður sporðblöðku. Ég ákveð að freista þess að komast í eins mikið návígi við laxinn og mögulegt er og veð varlega út að staðnum. Svo kasta ég stutt kast upp í straum og fylgist með  flugunni reka rólega að steininum. Laxinn kafar á móti flugunni og stangar hana í burtu. Aftur og aftur endurtekur hann leikinn án þess að taka. Svo kasta ég þvert og læt fluguna koma á ferðinni að staðnum. Þetta þolir goggurinn ekki og hvolfir sér með látum á  fluguna. Eftirleikurinn er við hæfi. Hængurinn leggst eitt augnablik þungt í, stekkur, strikar ákveðið fram af brotinu, niður flúðirnar  og kveður að hætti stórra túndrulaxa.

 

Ein jörð

urriði með ugga upp úr vatni

Þegar ég var ungur maður hafði ég engar áhyggjur af jörðinni, náttúrunni, loftinu, vötnunum og dýrunum.  Tók þetta allt sem sjálfgefinn hlut, þar sem ég gæti athafnað mig að vild án þess að vera eitthvað sérstaklega að taka tillit til eins eða neins.  Samt fór ég ágætlega nestaður að heiman, alinn upp af móður sem innprentaði virðingu fyrir náttúrunni.  Þetta eigingjarna hugarfar sem ég tileinkaði mér eftir að ég hleypti heimadraganum varði um árabil en svo kom að ég fór að hugsa aðeins út fyrir þennan hundfúla eiginhagsmunaramma. Áttaði mig á að það er bara þessi eina fallega jörð sem er í boði. Skildi að hún þarf ekkert á okkur að halda, það erum við sem komumst ekki af án hennar. Það er auðvelt að ná tengingu við þennan raunveruleika standandi við fallega á með flugustöng að leita að uppítökum. Þegar maður sér fluguna klekjast út, urriðann velta sér í yfirborðinu og horfir á andamömmu með ungahóp á eftir sér synda með gogginn opinn í næsta fluguklasa veit maður að það þarf stundum ekki meira en eina geggjaða hugmynd til að má þessa mynd út, fyrir fullt og allt. Eina illa ígrundað virkjun, eina vitlausa ákvörðun um vatnaflutning í nafni byggðaþróunar og framfara.

 Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður

Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður


Leave a comment