Það er stutt í sögunördinn í mér og fljótlega eftir að ég fór að veiða með flugu komst ég að því að fluguveiði á sér langa og býsna merkilega sögu. Til dæmis eru skráðar heimildir um fluguveiðar löngu fyrir tíma Krists en þá áttu menn að hafa vafið beinkróka með litaðri ull og notað sem agn. Abbadís í skosku klaustri er talin hafa ritað fyrst um fluguveiðar, þar sem hún sýndi uppskriftir af þurrflugum sem hún og nunnur klaustursins notuðu við urriðaveiðar í nærliggjandi ám og fylgir því úr hlaði með heimspekilegum lýsingum á þeim kostum sem góður veiðimaður þyrfti að vera búinn.

Svo eru það köstin með öllum sínum stórkostlegu útfærslum, stangir, hjól, flugulínur, svo ekki sé talað um flugurnar, val á þeim og hvernig best er að leggja þær fyrir fiskinn - lífríkið, lirfur, púpur, hvernig flugur klekjast út, hvernig þær sitja á vatninu, hitastig vatns og lofts, allar þessar dásamlegu tengingar. Skáld hafa ort og yrkja enn kvæði um fluguveiðar og heittrúaðir halda því jafnvel fram að Jesús og postularnir hafi allir veitt með flugu, þeir lengst komnu hafi veitt með þurrflugu. Það tók mig nokkurn tíma að virkja skáldið í mér og mín fyrstu ár í fluguveiði áttu lítið sameiginlegt með skáldskap, nema ef hægt væri að líkja atgangnum við Grettisrímur. Þungar stangir og níðþungir sökkendar voru staðalbúnaður og veiðin gekk út á að koma sem flestum fiskum í plast. En það heyrir fortíðinni til. Þannig er fluguveiðin, hún býður upp í alls konar dansa, suma í íhaldsamari kantinum þar sem menn halda dauðahaldi í hefðina sem getur verið sjarmerandi, og aðra sem kalla eftir nýjungum og þróun.

Tvær stangir og ein til vara

Ég á dágott safn af stöngum sem sumar hverjar kostuðu augun úr. Í dag nota ég einungis fisléttar stangir, einhendur fyrir línu 2-5 og tvíhendur 11-12. Það fylgir því svolítið vesen að eiga margar góðar stangir því oftar en ekki enda þær allar í skottinu á bílnum þegar lagt er af stað í veiðiferð. Í stangasafninu er ein stöng sem sker sig úr hvað varðar útlit og verð, stöng sem ég kalla litla ljóta andarungann og er í uppáhaldi hjá mér. Ég fékk hana gefins fyrir nokkrum árum en þá var ég að skoða nýjar stangir í þekktri veiðibúð, var að pæla í að bæta einni í safnið, ekki að ég þyrfti nokkuð á því að halda. Þar sem ég stóð fyrir framan stangarrekkann sá ég eitthvað heiðgult sem lá neðst í rekkanum, alveg niðri við gólf.

Við nánari athugun var um flugustöng að ræða fyrir línu 5, af tegund sem ég hafði aldrei heyrt nefnda. Ég spurði eigandann um stöngina en hann vildi sem minnst um hana ræða, sagði hana hafa flotið með þegar hann tók við búðinni, hún væri poka- og hólklaus, hálfgerður munaðarleysingi sem hann vissi enginn frekari deili á. Svo horfði hann á mig með vonarglampa í augum, - ef þig langar í stöngina máttu eiga hana, það hefur enginn sýnt henni áhuga þó hún kosti svo gott sem ekkert og hún tekur bara upp pláss, ég verð guðsfeginn að losna við hana.

Ég þakkaði pent, tók stöngina sundur, fékk ræfil af poka utan um hana og hélt mína leið. Þegar ég kom heim fór ég að skoða gripinn og komst að því að um var að ræða stöng frá Montana, smíðuð í ævagömlu fjölskyldufyrirtæki fjallabúa. Daginn eftir fór ég út að á að prófa gripinn. Stöngin reyndist mjúk og hæg og algjör eðalgripur. Í dag er ljóti andarunginn ein af mínum uppáhalds. Einn forngripur er í stangarsafninu 19 feta skosk bambusstöng, níðþung með voldugum koparsamsetningum. Ég tók stöngina með mér upp í Mývatnssveit fyrir nokkrum árum ákveðinn í að endurgera myndbrot frá fyrri tíð þar sem sagt var frá því hvernig menn veiddu ofan af brekkubrún fyrir ofan Vörðuflóa með löngum bambusstöngum og köstuðu yfir að landi hinum megin.

Það tók tíma að finna línu fyrir stöngina því lykkjurnar voru gerðar fyrir ofnar línur og það var ekki fyrr en ég var kominn niður í línu númer 2 sem ég náði að þræða í gegnum efstu lykkjurnar. Síðan tóku við æfingar sem gleymast seint. Að kasta með níðþungri stönginni var vesen en að lokum fann ég tempóið, og náði að hlaða stöngina. Og viti menn ég kastaði auðveldlega yfir að bakkanum hinum megin. Hinsvegar var lítið eftir af öxlunum á mér eftir hálftíma puð. Það toppaði svo allt þegar ég setti í stóran urriða sem fór af eftir stutta viðureign, sem betur fer, nóg var nú baslið.

Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður


Leave a comment